Akademísk staða í klínískri sálfræði

Háskólinn í Reykjavík leitar að akademískum starfsmanni í fullt starf. Umsækjendur skulu hafa doktorspróf í sálfræði, helst á sviði klínískrar sálfræði, og hafa reynslu af kennslu á háskólastigi og klínísku starfi á sviði hugrænnar atferlismeðferðar barna og/eða fullorðinna. Umsækjendur skulu þar að auki vera virkir rannsakendur og hafa birt fræðigreinar á ritrýndum vettvangi. Starfsheiti (lektor, dósent eða prófessor) verður ákvarðað að loknu matsferli.

 

Nýr akademískur starfsmaður mun kenna og hafa umsjón með námskeiðum í MSc-námi í klínískri sálfræði og hafa umsjón með námskeiði í klínískri sálfræði í Bsc-námi í sálfræði. Starfsmaðurinn mun einnig sinna rannsóknum, leiðbeina nemendum í rannsóknarverkefnum, handleiða í klínískri starfsþjálfun og sinna ýmsum tilfallandi verkefnum sem tengjast námi í deildinni.

 

Leitað er að leiðtoga sem getur þróað það framúrskarandi rannsóknar- og kennslustarf á sviði klínískrar sálfræði sem unnið er á sálfræðisviði HR. Starfið veitir tækifæri til þess að hafa áhrif á framtíð klínískrar sálfræði á Íslandi sem starfsmaður háskóla með nýsköpun og frumkvöðlastarf að leiðarljósi.

 

Laun eru umsemjanleg og boðið er upp á aðstoð við flutninga til landsins fyrir þá sem búa erlendis. Frekari upplýsingar um sálfræðisvið HR má finna á hr.is/salfraedi og hr.is/salfraedi/msc. Þar að auki svara dr. Jón Friðrik Sigurðsson, forstöðumaður MSc-náms í klínískri sálfræði (jonfsig@ru.is), dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, sviðsstjóri sálfræðisviðs (bryndis@ru.is) og Ester Gústavsdóttir, sérfræðingur á mannauðssviði (esterg@ru.is)fyrirspurnum um stöðuna.

 

Umsóknum skal skilað til Háskólans í Reykjavík á vefnum ru.is/lausstorf. Með umsókn skal fylgja:

Ferilskrá, skrá yfir birt rannsóknarverk, lýsing á rannsóknarsviði einstaklings og framtíðarsýn í rannsóknum, upplýsingar um kennsluferil og kennslumat og um þrjá aðila sem veitt geta meðmæli. Eintak af allt að þremur áhrifamestu ritrýndum birtingum umsækjanda má einnig fylgja með. Farið er með umsóknir sem trúnaðarmál.

 

Umsóknarfrestur er til og með 15. febrúar 2019. Gert er ráð fyrir að nýr starfsmaður hefji störf í síðasta lagi í ágúst 2019.

 

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfagleika, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu. Nemendur háskólans eru um 3400 og starfa um 230 fastir starfsmenn við skólann auk fjölda stundakennara.

 

 

 

 

Deila starfi
 
  • Háskólinn í Reykjavík
  • Menntavegi 1
  • 101 Reykjavík
  • Sími: 599 6200