Doktorsnemi í sálfræðideild

side photo

Staða doktorsnema við Háskólann í Reykjavík er laus til umsóknar. Doktorsneminn mun vinna við rannsóknir á streitu og hugrænu álagi (e. cognitive workload) flugumferðastjóra. Um er að ræða samstarfsverkefni sálfræði- og verkfræðideildar þar sem unnið er að því að greina streitu og vinnuálag með mælingum á lífeðlisfræðilegum merkjum s.s. rödd, blóðþrýstingi og hjartslætti. Verkefnið er unnið í samstarfi við ISAVIA og hefur hlotið styrk frá Rannís, Icelandair og ISAVIA. Sterk áhersla er lögð á aðferðafræði og tölulega greiningu gagna.

 

Doktorsneminn mun vinna með þverfaglegum hópi vísindamanna og er ætlað í samvinnu við leiðbeinendur og aðra innan hópsins að vinna með fyrirliggjandi gögn sem og að setja upp og framkvæma næstu rannsóknir. Einnig er mikilvægt að doktorsneminn þrói sínar eigin rannsóknarspurningar innan ramma verkefnisins.

 

Einstaklingar með bakgrunn í sálfræði, heilbrigðisverkfræði eða tölfræði sem vilja láta að sér kveða á þessu sviði eru hvattir til að sækja um. Umsóknarfrestur er til og með 11. ágúst 2019. Sótt er um á vef HR: radningar.hr.is. Ef óskað er frekari upplýsinga má hafa samband við dr. Kamillu Rún Jóhannsdóttur ábyrgðarmann rannsóknarinnar - kamilla@ru.is.

 

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi. Akademískar deildir háskólans eru eftirfarandi: Lagadeild, tölvunarfræðideild, iðn- og tæknifræðideild, verkfræðideild, sálfræðideild, íþróttafræðideild og viðskiptadeild. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfagleika, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu. Nemendur Háskólans í Reykjavík eru um 3700 og starfa um 250 fastir starfsmenn við háskólann auk fjölda stundakennara.