Doktorsnemi í sálfræði við sálfræðisvið HR

Staða doktorsnema í sálfræði við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík, við verkefnið "Áföll, geðheilsa og uppljóstrun kynferðisofbeldis", er laus til umsóknar.

Doktorsneminn mun vinna með hópi íslenskra og erlendra vísindamanna að því að safna langtímagögnum um áföll, áfallastreitueinkenni og sögu um kynferðislegt ofbeldi og uppljóstranir um ofbeldi meðal fullorðinna á Íslandi. Rannsóknin fékk verkefnisstyrk Rannís í janúar 2018.

 

Rannsóknin hefur þrjú markmið. Fyrsta markmiðið er langtímamat á áfallasögu og áfallastreituröskun í tilviljunarúrtaki íslensku þjóðarinnar. Annað markmiðið er langtímagreining á algengi kynferðisofbeldis á netinu og í eigin persónu, hvort þolendur ljóstra upp um ofbeldið og hvaða áhrif ofbeldi og uppljóstranir hafa á geðheilsu. Síðasta markmið rannsóknarinnar er að þróa og meta mælitækið Social Reactions Questionnaire til að sjá hvort uppljóstranir á netinu og í eigin persónu og viðbrögð frá öðrum tengjast geðheilsu. Langtímagögnum verður safnað með þremur árlegum könnunum, með eigindlegum viðtölum og með fyrirliggjandi gögnum. Þátttakendur verða tilviljunarúrtak úr Þjóðskrá á aldrinum 18 til 80 ára. Þessi umfangsmikla rannsókn mun auka þekkingu á áföllum, geðheilsu og uppljóstrunum um kynferðisofbeldi, sem getur hjálpað fagfólki að þróa inngrip og meðferð fyrir þennan hóp. Rannsóknin mun einnig skila normum um áföll og áfallastreituröskun á Íslandi og leiða til fullbúins mælitækis um uppljóstranir og viðbrögð á netinu við kynferðisofbeldi.

 

Doktorsnemanum er ætlað, undir handleiðslu og í samvinnu við leiðbeinendur, að (i) hafa umsjón með gagnaöflun rannsóknarinnar, (ii) vinna að úrvinnslu gagna og (iii) skrifa vísindagreinar og kynna niðurstöðurnar á erlendum og innlendum ráðstefnum. Doktorsnámið mun undirbúa nemann fyrir vísindastörf svo sem háskólakennslu og vísindalegar rannsóknir og önnur mikilvæg störf innan heilbrigðis- og félagsvísinda.

 

Umsækjendur þurfa að hafa lokið meistaraprófi í sálfræði eða skyldum fræðigreinum. Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl 2018. Sótt er um á vef HR hér að neðan.

Einnig má hafa samband við annan hvorn verkefnisstjóra rannsóknarinnar dr. Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur (bryndis@ru.is), dósent við sálfræðisvið HR eða dr. Rannveigu Sigurvinsdóttur (rannveigs@ru.is), aðjúnkt við sálfræðisvið HR.

 

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi. Akademískar deildir háskólans eru fjórar: Lagadeild, tölvunarfræðideild, tækni- og verkfræðideild og viðskiptadeild. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfagleika, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu. Nemendur Háskólans í Reykjavík eru um 3700 í fjórum deildum og starfa um 240 fastir starfsmenn við háskólann auk fjölda stundakennara.

 

Share job
 
  • Reykjavik University
  • Menntavegur 1
  • 101 Reykjavík
  • Phone nr: +354 599 6200