Aðstoðarmaður við rannsóknir

side photo

Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík óskar eftir að ráða aðstoðarmann í rannsóknir. Aðstoðarmaðurinn mun vinna með hópi íslenskra og erlendra vísindamanna við rannsóknir á hugrænni atferlismeðferð við starfrænum einkennum sem skerða vinnugetu. Vinnan felur í sér þátttöku í undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu hluta rannsóknanna í samvinnu við leiðbeinendur og doktorsnema.

Starfræn einkenni eru líkamleg einkenni sem ekki eiga sér þekktar líffræðilegar orsakir. Þau eru algeng og geta verið bæði þrálát og alvarleg. Þrálát starfræn einkenni valda þjáningu, skerða lífsgæði, draga úr starfsgetu og þeim fylgir mikill samfélagslegur kostnaður.

Árangur hefðbundinnar læknismeðferðar við starfrænum einkennum er lítill en sýnt hefur verið fram á árangur sérhæfðra hugrænna atferlismeðferða við meðhöndlun tiltekinna gerða starfrænna einkenna. Fjöldi ólíkra starfrænna einkenna hefur orðið til þess að mörg sértæk úrræði hafa verið þróuð sem er óhagkvæmt í ljósi þess að til að beita þeim kerfisbundið þarf marga sérhæfða meðferðaraðila.

Á þessu ári hlaut rannsóknarteymi við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík verkefnastyrk frá RANNÍS til að aðlaga, innleiða og árangursmeta blandaða hugræna atferlismeðferð við starfrænum einkennum sem skerða starfsgetu. Rannsóknin bætir verulega við þekkingu á sviði starfrænna einkenna þar sem brugðist er við skorti á árangursríkri og hagkvæmri meðferð sem hæfir fólki með slík einkenni sem þarfnast starfsendurhæfingar. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir áhugasama á þessu sviði.

Umsækjendur þurfa að hafa lokið BSc-prófi í sálfræði eða skyldum fræðigreinum. Umsóknarfrestur er til og með 27. september 2019. Sótt er um á vef HR: www.radningar.hr.is

Ef óskað er frekari upplýsinga má hafa samband við dr. Jón Friðrik Sigurðsson, prófessor við sálfræðideild HR og ábyrgðarmann rannsóknarinnar, jonfsig@ru.is og Sigrúnu Ólafsdóttur, sálfræðing og verkefnisstjóra rannsóknarinnar, sigrunola@ru.is.

 

Hlutverk Háskólans í Reykjavík er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi. Akademískar deildir háskólans eru sjö: Iðn- og tæknifræðideild, íþróttafræðideild, lagadeild, tölvunarfræðideild, verkfræðideild, viðskiptadeild og sálfræðideild. Kennsla og rannsóknir við Háskólann í Reykjavík mótast af sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Lögð er áhersla á þverfagleika, alþjóðlegt umhverfi, nýsköpun og góða þjónustu. Nemendur Háskólans í Reykjavík eru um 3700 og starfa um 250 fastir starfsmenn við háskólann auk fjölda stundakennara.